Þessa uppskrift fékk ég fyrst senda frá vinkonu í útlöndum. Auðvitað þurfti ég aðeins að breyta henni og ég lofa að þeir sem smakka hana munu vilja uppskriftina. Ég geri hana í skúffukökuform og sker hana í litla bita fyrir matarboð, en drengirnir mínir vilja stórar sneiðar.
Brownie súkkulaðikaka með kókoskaramellutoppi, syndsamlega góð
2016-03-21 23:50:24
Dásamlega djúsí og bragðgóð kaka. Það gerast einhverjir töfrar þegar súkkulaði, ristað kókos og karamella hittast. Gott að gera hana kvöldið áður en matarboðið er - ef þið getið beðið svo lengi.
Innihaldsefni
Kaka
- 1/4 bolli olía, ég nota sólblómaolíu
- 4 msk brætt smjör
- 1 bolli sykur
- 1 tsk vanillu essens
- 2 stór egg
- 1/2 bolli hveiti
- 1/3 bolli gott kakó
- 1/2 tsk lyftiduft
- Klípa af salti
- 1 poki súkkulaði konsum dropar frá Nóa Síríus
Kókos-karamellu toppur
- 3 bollar kókos, mér finnst best að nota grófari tegundina en hin virkar vel líka
- 3 pokar af Werther’s Original Chewy karamellum sem fást t.d. í Bónus
- 3 msk léttmjólk, nýmjólk virkar örugglega alveg en á hana aldrei
Samsetning
Kaka
- Hitið ofninn í 180 gráður.
- Smyrjið og stráið hveiti í formið svo kakan festist ekki við það.
- Blandið saman í stóra skál olíunni, brædda smjörinu, sykrinum og vanillunni og blandið vel saman með písk.
- Blandið eggjum saman við og hrærið vel saman.
- Sigtið þurrefnin í litla skál og blandið svo saman við blautu blönduna. Hrærið súkkulaðidropunum varlega saman við.
- Hellið blöndunni í formið og bakið í 25-30 mínútur.
- Látið kökuna standa á meðan toppurinn er búinn til.
Kókos-karamellu toppur
- Ristið kókosinn í djúpri pönnu við vægan hita þar til hann er fallega gylltur (passið að hræra stöðugt í) og setjið svo til hliðar í skál.
- Bræðið karamellurnar í mjólkinni við vægan hita þar til blandan er kekkjalaus.
- Hellið karamellunni saman við kókosinn og blandið vel saman, en passið ykkur að vera frekar snögg hér þar sem hún harðnar fljótt.
- Setjið toppinn á kökuna. Gott er að geyma hana í kæli áður en hún er skorinn í þá bita sem þið viljið.
Athugasemdir
- Auðvitað er gott að gera sína eigin karamellu en ég hafði bara engan tíma í það svo ég tók styttri leiðina í þessa uppskrift. Til að gera kökuna enn betri set ég alltaf klípu af salti í karamelluna áður en henni er blandað saman við kókosinn. Ég veit fátt betra en saltar karamellur og hér passar það fullkomlega. Svo skreyti ég kökuna með smá bræddu suðusúkkulaði ef ég hef tíma.
EatRVK https://www.eatrvk.is/
Pingback: Trufflur með ristuðum kókos og rjómakaramellu | EatRVK